Tuesday

Föstudagurinn 7. september 2007


Við lentum í sól og 15 stiga hita á Vantaa flugvelli, mjög gott að komast úr haust-rigningunni á Íslandi. Það gekk vel að finna fyrsta áfangastaðinn sem heitir Haikko og er gamall herragarður sem í dag er rekinn sem ferðaþjónusta. Hótel Haikko er staðsett rétt utan við Porvoo, 50 km. austan við Helsinki. Hótelið geymir mikla sögu tengdum rússneskum aðalsætttum og má sögu Haikko rekja aftur til 1362, þá í eigu rússnensks munkaklausturs. Árið 1966 var Haikko opnað í núverandi mynd sem ferðaþjónusta og hefur í dag að geyma heilsulind, fundaraðstöðu og garð sem býður upp á göngur og hjólreiðar á sumrin en gönguskíði á veturna. Arja, sú sem ég hafði samband við þegar ég pantaði hótelið var ekki við þegar við komum, svo við reyndum að skoða og spyrja annað starfsfólk að því helsta sem vakti áhuga okkar það var auðsjáanlegt að mikið um að vera á hótelinu enda föstudagur. Umhverfið vakti strax mikla athygli, garðurinn og aðkoman var afar glæsileg. Manor húsið var mjög tignarlegt en hótelið (þar sem við gistum) var mjög einfalt, herbergin voru í minna laginu og við kannski bjuggumst við meiru vegna þess að heimasíða fyrirtækisins er afar glæsileg og greinilega sýnt aðeins það besta á síðunni, sem sýnir að aðgátar skal gætt í heimasíðugerð svo væntingar getsins fari ekki langt fram yfir upplifun. Sér bygging var fyrir fundaraðstöðu sem var í ca. 50 m. göngufæri frá hótelinu og var mikið af fólki sem greinilega var í fundar og ráðstefnustörfum í heimsókn sinni hér. Seinnipartinn skoðuðum við svæðið örlítið í kringum Haikko, Borgaa er skemmtilegur lítill bær þar sem gömlum timburhúsum var haldið sérstaklega vel við og var þar að finna glæsilegar minjagripabúðir og aðrar handverksbúðir sem flestum var búið að loka þegar við áttum leið hjá þar sem klukkan var að ganga 19. Þessi staður minnti óneitalega á grjótaþorpið í Reykjavík en miklu stærri. Við fengum smakkað finnska pylsu með tómatsósu og heimatilbúnu sinnepi sem var svo sterkt að við vorum lengi að jafna okkur, tár féllu, kvef læknaðist og maginn snerist við!!
Við komumst einnig að því að Finnar eru með ÁTVR (Alko) eins og við Íslendingar.
Um klukkan átta áttum við pantað borð á veitingastað Haikko, sem var í Manor húsinu glæsilega og var veitingastaðurinn ákaflega glæsilegur og mátti sjá strauma fortíðar í innréttingum sem og húsgöngum. Við báðum þjónin að benda okkur á “local food” en hann gat ekki bent á neitt sérstakt “local” en mældi með nokkru sem var “Haikko specialize” og var maturinn allur mjög góður. Það sem vakti athygli okkar í manor húsinu var glerskápur með leirtaui allt frá 17. öld frá herragarðinum og voru ártöl merkt við skálar og bolla frá fornum tíma setursins, mjög skemmtilega sett fram. Auk þess vou uppi málverk með ábúendum setursins frá fyrri tímum. Risa risa stór gestabók A3 var á herragarðinum þar sem við kvittuðum fyrir okkur (hef aldrei séð jafn stóra og þykka bók) en samt var hún bara frá árinu 2005 en hálfnuð sem segir að gestir hljóta að vera gríðarlega margir sem fara í gegnum þennan stað. Eftir matinn fengum við okkur göngu um garðinn sem var ólýsanlega fallegur. Mikið gert fyrir öll smáatriði. Þarna er gert ráð fyrir fleiri afþreyingu en göngu og skíðagöngu, m.a. blaki og frispígolfi. Mikið var af garðhúsum sem eru notuð bæði til að grilla í og sitja í þegar rigning er eða of mikil sól. Mjög skandinavískt!
Þegar við komum aftur á hótelið var rólegt í móttökunni og ræddum við Mariu- Louise sem sagði okkur að þetta væri mikill “high-seson” tími í ráðstefnum og fundum og væri hótelið fullt alla daga sem eftir er dvöl okkar á Finnlandi svo við komum líklega ekki aftur en hún sagði okkur einnig að ekki væri sjálfgefið að ráðstefnu- og fundargestir nýttu sér heilsulindina. Þetta væru tveir ólíkir markhópar sem sóttu hótelið, þ.e. ráðstefnugestir (Finnar og erlendir ferðamenn) og svo spa-gestir sem eru fríi og njóta tímans og taka SPA-pakka m/gistingu og hafa meiri tíma en ráðstefnugestirnir og væru það jafnt Finnar sem og erlendir gestir. Það var mjög gott að tala við Mariu en það var auðsjáanlegt þegar við komum í dag að mikið var að gera og starfsfólk hafði takmarkaðan tíma til að svara spurningum en gott var að fá smá tíma til að kanna hvernig vörur hótelsins væru samsettar og hvernig markhópar nýttu þessar vörur. Á morgun fáum við nudd og höldum svo norður á leið á rólegum hraða til að fínkemba allt það skemmtilega sem við sjáum því það er margt sem fangar athygli manns hérna, landslagið og fegurðin leynist við hvert horn. Ekkert hefur heyrst meira frá Runni svo við sjáum til hvernig verður með þá heimsókn. En án efa finnum við eitthvað meira áhugavert.



Laugadagur 8. september 2007

Við vöknuðum í fyrra fallinu eftir góðan svefn og fórum í morgunmat í Manorhúsið. Morgunverðarhlaðborðið var glæsilegt, mikið úrval af öllu mögulegu og m.a. var þar hafragrautur og síld í boði sem féll í góðan jarðveg, allavega hjá okkur Íslendingunum. Eftir morgunmatinn áttum við pantaðan tíma í nudd, Heilsulindin á hótelinu var mjög glæsileg, sundlaugar, tyrknestk böð ásamt hinum vinsælu sánaböðum Finna. Hægt var að komast í sérstaka kuldameðferð á vissum tímum sem á að vera sérstaklega góð fyrir alls lags kvilla eins og svefnleysi, vöðvabólgu og þreytu. Meðferðin er þannig að maður fer inn í klefa -35°C og ert þar í 2 mín. í sokkum, vettlingum og með húfu svo ferðu í rúmlega -70°C klefa í nokkrar mínútur og svo loks í -110°C í nokkrar mínútur og eftir það færðu viðurkenningu fyrir hugrekki. Sagt er að þessi lághitameðferð sé mjög frískandi og holl, eitthvað sem við víkingarnir lögðum samt ekki í!! Það kom samt á óvart að hvergi í heilsulindinni var róandi tónlist og ekki beint hlýlegt eins og maður hagði vonað og búist við af svona stað. Við vorum bæði sammála um að nuddið hafði verið frekar hart og vorum við hálf feginn þegar tíminn var búinn, þetta var sem sagt ekki beint slökunarnudd!! Við kvöddum Haikko um hádegið og héldum aftur til Borgaa til að skoða gamla bæinn sem við litum á eftir lokun deginum áður. En nú var allt opið og þar var mikið mannlíf (mikið af ferðamönnum úr öllum áttum). Minjagripa- og hönnunarbúðirnar voru hver annarri flottari, allar alveg 100% local og veitingastaðirnir mjög áhugaverðir. Við fengum okkur ekta finnskan hádegismat sem var kjötbollur, kartöflur og sósa, brauð og mjólk (sem er greinilega óvíkjanlegt meðlæti með mat hér í Finnlandi) og smakkaðist þetta sambland mjög vel. Eftir skemmtilegan tíma í Borgaa héldum við út í óvissunna og keyrðum norður á leið. Við höfðum fundið tvo ferðaþjónustubæji á netinu og í bækling Farmholidays í Finnlandi sem svipa til FB- gistingum heima, kvöldinu áður. En eftir nokkur bank og símhringingar og smá auka keyrslu komumst við að því annar bærinn starfaði bara á sumrin og hinn var alveg lokaður (lokaður sími) og allt harðlæst. Svo fundum við hálfgert Vogafjós Finna sem seldi greinlega ís, sáum það á skilti við veginn, en engin var heima þar heldur og því miður ekkert símanúmer. Að lokum eftir mikla keyrslu í leit að áfangastað enduðum við á Sokos hóteli inn í Mikkeli, sem er hótelkeðja sem selur ódýra en virkilega góða gistingu og eru hótelin venjulega staðsett á besta stað í bæjum Finnlands, þar gistum við á 3ja stjörnu hóteli og borðuðum á veitingastað sem hafði upp á að bjóða “local food” bæði hreindýr og fisk sem bragðaðist mjög vel. Því næst var haldið upp á herbergi og planaður morgundagur sem vonandi mun ganga betur. Það er einkennandi fyrir Farmholidays í Finnlandi (á netinu og í bæklingum og öðrum auglýsingum) hversu ólíkt þetta er heimaslóðum þ.e. það er miklu meira af cottages og villum hér sem fólk leigir í lágmark viku og eru þessar gistingar venjulega hugsaðar fyrir fjölskyldur en ekki einstaklinga. Svo er náttúrlega B&B sem hafa litla afþreyingu upp á bjóða og svo að lokum örfá Sveitahótel sem voru flest lokuð þegar við hringdum...!! við höfum samt nokkra staði í huga fyrir morgundaginn svo það er bara að keyra og sjá.


Sunnudagurinn 9. september

Við vöknuðum í sól og blíðu í Mikkeli og skiluðum af okkur herberginu og fengum okkur “lunch” á hótelveitingastaðnum sem við borðuðum local food kvöldinu áður og vorum ekki svikin af ekta finnskum brunch sem bragðaðist frábærlega.
---Á staðnum fundum við frábæran bækling af svæðinu sem við vorum nú að fara að skoða þar sem týnt var það helsta sem áhugavert væri að sjá, engar óþarfa auglýsingar heldur komið beint að efninu, bæði rural gististaðir, rural búðir og rural kaffihús, veitingastaðir og afþreying. Svona bæklingar þyrftu að vera til heima um hvert svæði og alls ekki vitlaus hugmynd fyrir FFB til að upplýsa það sem bjóða má upp á á hverju svæði fyrir sig. Þetta er lítill en fallegur bæklingur þar sem hvert fyrirtæki hefur 2 bls. til kynningar og afmörkun svæða yrði að vera til staðar svo bæklingurinn yrði ekki of yfirgripsmikill og væri honum dreift á þetta ákveðna svæði.---
Nú lá leiðin austur og varð fyrir valinu að gista í cottage að þessu sinni, reyna að prófa sem flesta möguleika sem eru í boði!! Á leiðinni voru ýmsir staðir að skoða, nokkrar bændagistingar, einn stór heilsutengdur staður sem sérhæfir sig í afþreyingu eins og göngum, hjólreiðum, vatnaböðum, almennri líkamsrækt og á veturna skíða, skauta og sleðaíþróttum.
Allar bændagistingar voru lokaðar nema einn staður sem var svo skemmtilegur að sjá!! Þetta var ferðaþjónustubær, Ollinmaki, staðsettur um 18 km. frá Mikkeli. Bærinn sérhæfir sig í vínframleiðslu, bæði úr krækiberjum (eins og við finnum heima), eplum, hvítum, rauðum og svörtum garðaberjum sem öll vaxa á svæðinu. Húsfreyjan, Sirpa kynnti okkur fyrir öllu því sem þau seldu og hvað væri í boði í ferðaþjónustunni. Þau seldu einnig sultur m/ víni, cider (heitt og kalt) og ýmsar gjafavörur tengdar víni. Nöfnin á finnsku vínunum koma frá fornum ljóðum frá fornum finnskum skáldum og eru víst mjög rómantísk. Sirpa sagði okkur frá hvernig vínin væru framleidd og að aðeins væru notuð 100% náttúruleg og finnsk hráefni í víngerðina og alla framleiðsluna.
Staðurinn hafði 100 manna veitingasal sem er aðeins fyrir hópa, vínturn þar sem 25 manns geta setið og sötrað og horft á útsýnið yfir skóginn og vötnin. Á sumrin er þar opin afþreyingargarður þar sem er hálfgert tívólí og þá er hægt að sitja á pallinum eða ganga út í skóg í “skóghýsi”og fá stemmingu Finnlands beint í æð. 2 villur eru leigðar út til gistingar og eru þá aðeins leigðar til hópa (önnur er fyrir 12 manns og hin 10 manns) Þetta eru gríðarlega flott og rúmgóð bjálkahús með arin og saunu. Villunum fylgir mótorbátur sem hægt er að nota út á Saimaa-vatnið. Hægt er að leigja fjórhjól og reiðhjól til að skoða sig um svæðið. Þetta er staður sem enginn má missa af í heimsókn til Finnlands. Sniðugt fyrir fjölskylduferðir og ýmsa mannfagnaði. Það var sérstaklega áhugavert að þetta er eini ferðaþjónustubóndinn sem við höfum náð að heimsækja á þessarri ferð og er þetta sérstaklega skemmtileg leið til að sameina “beint frá býli” og ferðaþjónustu.
Á heilsutengdu ferðaþjónustunni Anttolanhovi tók Kati á móti okkur og svaraði okkar helstu spurningum. Anttolanhovi er staðsett við Saimaa- vatnið, sem er eitt af stóru vötnunum á Finnlandi. Hótelið er mjög stórt og er svæðið í kring alveg ekta finnskt, há tré og vatn. Kati sagði að hótelið gerði mest út á wellness og afþreyingu og er þá að taka um andlega og líkamlega heilsu s.s. gönguferðir, hjólreiðar, tennis og blak, bátar, hlaup, vatnasund og gufu. Á veturna er mikið af skíðagöngum, snjógöngum og skautaíþróttum. Spa er semsagt ekki endilega samnefnari að heilsutengdri ferðaþjónustu. Áhersla er lögð á hefðbundinn “home-cooked local food” án aukaefna. Á þessum stað er Manorhúsið notað á sumrin bæði fyrir gistingar og svo listasýningar ýmiskonar. Á veturna er húsið aðeins leigt fyrir hópa og fyrirfram bókaða hópa. Hótelið gerir ekki mikið út á fundi og ráðstefnur en hægt er að leigja 40 manna sal á hótelinu en Kati sagði að hótelið væri nær eingöngu notað í heilsutengdum tilgangi. Í móttökunni mátti sjá hillur með minjagripum sem allir eru unnir frá listafólki á svæðinu, útskornir trégripir, skartgripir, prjónafatnað og þurrkuð ber sem snakk.

Þegar klukkan var að nálgast 16 yfirgáfum við Anttolanhovi og héldum að Blue White Resorts Sahaniahti þar sem við áttum pantaða gistingu í nótt. Svolítið erfiðlega gekk að finna staðinn því skiltin voru ekki með örvum. En að lokum komum við að fallegu timburhúsi við vatn og var þar hægt að gista bæði í herbergi á hótelinu eða í cottage og við ákváðum að prófa cottage, eitthvað svona ekta finnskt!! Jonnaa, ung brosmild stúlka, tók á móti okkur og bauð okkur upp á ekta finnska kjötsúpu og með því, virkilega gott. Bústaðurinn var æði. Það var sér sánabað en líktist að öðru leiti mjög íslenskum sumarbústað en umhverfið var náttúrlega alveg sérstakt, há tré, logn og friðsæld. Jonni prófaði að veiða en kom með öngulinn í rassinum heim, enda ekki miklar upplýsingar að fá hjá stúlkunum í móttökunni, þar sem þær vissu ekki mun á fluguveiðistöng eða kaststöng eða hvar væri best að veiða í vatninu. Eftir veiðiferðina var farið að leita matar, ekki var opin veitingastaðurinn á hótelinu en stúlkan í móttökunni tjáði okkur að leita til Puumala. Við fundum bæinn en engan veitingastað, eftir mikla leit bæði í bænum og í að öðrum bæjum rákumst við á bar sem seldi “take away” pizzur og líka alveg frábærar pizzur. Við sátum í bústaðnum í skemmtilegri sumarbústaða-stemmingu og borðuðum eina af bestu pizzum sem við höfðum smakkað (bjuggumst ekki við því, næstum því á landamærum Finnlands og Rússlands)!!
Kíktum aðeins í einkasánu eftir mikið pizzuát og héldum í háttinn nálægt miðnætti.



Mánudagur 10. september

Við vöknuðum í fallegu umhverfi í bústaðinum, vatnið var spegilslétt og allt svo rosalega friðsælt að það var erfitt að vakna og fara. Um hádegið fórum við upp að móttökunni til að tékka okkur út og þar var boðið upp á frábært hádegisverðarhlaðborð, mjög “local” og rosalega gott. Minjagripasala var á hótelinu með hnífa sem gerðir eru af manni á svæðinu og skartgripi eftir finnska hönnuði. Þegar við tékkuðum okkur út fengum við miklar upplýsinga varðandi staðinn frá Anne eiganda hótelsins og langar henni að koma til Íslands einhverntíma með manninum sínum sem er algjör veiðidellukall. Við létum hana fá öll gögn og vonandi lætur hún sjá sig. Hún sagði að flestir sínir gestir kæmu frá Rússlandi og Finnlandi og var það einmitt mjög áberandi á öllum merkingum sem voru allar á finnsku... ja eða rússnesku. Margir veiðimenn sækja staðinn og svo fjölskyldufólk. Jonni fékk betri upplýsingar um veiðina hjá henni og að mest væri veitt í vatninu af geddum. Hún gaf okkur leiðbeiningar um hvert best væri að halda á næsta áfangastað sem var algjörlega óákveðinn af okkar hálfu, en hún mældi með Runni, eða staðnum sem ég hafði reynt að bóka hjá fyrir helgi en ekkert var laust þá. Hún var fljót að taka upp símann og reddaði okkur svítu á 120 evrur. Við ákváðum að slá til. Fyrir höndum beið okkar þó löng keyrsla auk þess sem okkur langaði að kíkja á tvo staði á leiðinni sem við þurftum aðeins að taka smá aukaleið til að skoða. Við kíktum á kastalann Olavinlinna í Savonlinna sem er yngsti kastallinn í Finnlandi og var ekki byggður fyrir kóngafólk heldur hermenn. Kastalinn var mjög flottur og vel við haldið. Núna eru þar skoðanaferðir og svo er hann notaður fyrir veislur og ráðstefnur með 2 stórum sölum. Í kastalanum var minjagripaverslun sem seldi fáa local “hluti” en fullt af hlutum sem búnir voru til í Þýskalandi og Englandi og fl. stöðum, okkur fannst það frekar óvenjulegt og fannst minjagripirnir frekar vera nokkurs konar áfylling frekar en eitthvað sem skapa ætti upplifun.
Næst var ferðinni haldið í Lomamokkila, elstu “rural” ferðaþjónustuna á svæðinu. Allt umhverfið var mjög sjarmerandi og “rural” en enginn var við, eftir bank og símhringingar sem skiluðu ekki svari urðum við að halda áfram svo við myndum ná í Ruunni fyrir myrkur. Þetta leit út fyrir að vera ferðaþjónusta á sumrin er meira búskapur utan þess tíma, þó það sé aðeins ágiskun okkar. Löng leið var norður í Runni og vorum við þar um áttaleytið og af bæklingum og heimasíðu af dæma var eins og við værum að villast, en svo var ekki. Þegar við gengum inn í bygginguna var eins og við værum að ganga inn á elliheimili!! Allt var mjög stofnanalegt og aðeins gamalt fólk sem var í matsalnum í gömlu dönsunum og inn í lobbýinu með stóla á víð og dreif að horfa á átta fréttirnar. Þegar við gengum inn horfði fólk á okkur stórum augum, enda lækkaði meðalaldurinn um tugi ára :)
Svítan var skrýtin. Þetta var meira eins og íbúð með gömlum og óþægilegum húsgögnum. Við ákváðum að fara í mat strax þar sem “a la carte” var aðeins til 20.30 og þar fengum við borð innan um dansandi gamalmenninn og maturinn var því miður ekki góður. Ofsteikt kjöt með vanillusósu og bragðlaust pasta með sömu sósu. Við reyndum að tala við bæði konuna í móttökunni og konuna á veitingastaðnum varðandi upplýsingar um staðinn en þær skilja ekki einfalda ensku svo það skilaði engu til okkar. Núna erum við kominn upp í “svítuna” og sjáum það að þegar markaðssetning er gerð verður hún að vera raunhæf. Bæklingurinn og heimasíðan er alveg út úr kú miðað við upplifunina. Þetta eru eins og tveir ólíkir staðir!!
Við ætlum að vakna snemma á morgun og halda lengra norður, á morgun gistum við á Hotel Kalevala í Kuhmo, þar sem ég hafði bókað fyrir ferðina í 2 nætur, vonandi verður upplifunin betri!!




Þriðjudagur 11.september

Eftir frekar erfiða nótt í ómögulegum rúmum og viftu hávaða vöknuðum við seint. Við náðum ekki að fara í morgunmat og okkur langaði ekki í hádegismat á staðnum svo við tékkuðum okkur út fyrir hádegi og það var sem fyrr, engin talaði ensku og starfsfólk frekar lokað. Við spurðum um sundlaugina og okkur var bent á eftirlitssjónvarp í lobbýi. Við kvöddum staðinn og héldum aðeins norður á bógin til Kuhmo. Við fengum okkur frábæran hádegismat á bensínstöð á leiðinni. Við keyrðum svo beint að hótelinu sem var mjög auðvelt að finna og var þetta stórkostleg bygging með mikinn sjarma og mátti finna menningu Finnlands hvert sem litið var. Við áttum svítuna bókaða sem var mjög glæsileg, þar var hornbaðkar, stórt og þægilegt rúm og þarna mátti í fyrsta sinn sjá umhverfisstefnu, m.a. varðandi sparnað vatns og handklæðanotkun. Það er athyglisvert að á öllum salernum sem ég hef notað hér á Finnlandi (sem eru nokkuð mörg!!) hvort sem það er á gististöðum, almenningsklósettum, veitingstöðum eða bensínstöðvum eru allir með pappírshandþurrkur en ekki handblásara eða fjölnota þurrkur. Sem er nokkuð merkilegt í ljósi þess hversu hreint Finnland er!!
Við fengum góða móttöku á Hótel Kalevala og var frekar rólegt að gera svo stúlkan, Minna, í móttökunni gaf sig alla í að gefa upplýsingar um alla þjónustu og eins varðandi nafnið Kalevala sem við höfum verið að spá í lengi hvað þýði, af því við höfum séð það víða á ferð okkar hér bæði í sambandi við vörur og þjónustu. Kalevala er sem sagt, forn bók frá Finnlandi sem er eitthvað í líkingu við Íslendingasögur og Eddukvæði okkar Íslendinga. Minna spurði okkur hvort kokkur hússins mætti bjóða okkur upp á ekta “local” mat um kvöldið og þáðum við það með þökkum. Í kvöldmat voru ekki margir (ca. 6 manns) en allir fengu saman mat. Í forrétt var villisveppasúpa, bökuð gedda með kartöflum í rjómaostasósu í aðalrétt og berjamauk í eftirrétt. Besti matur sem við höfum smakkað í Finnlandi hingað til. Ekta local!! Þetta sýnir að ekki þarf að hafa “a la carte” eða hlaðborð þegar fámennt er í húsinu, heldur að bjóða gestum upp á eitthvað skemmtilegt local sem til er, en með metnaði! Fólk gat valið um að fá 3ja rétta, 2ja rétta eða bara aðalrétt og þetta heppnaðist vel þó fáir hefi verið á hótelinu og eins í matnum.
Við skoðuðum aðeins “wellness- deildina” og fannst mikið til koma. Það voru heitir innipottar, gríðarlega flott útsýni, hvíldarherbergi, nokkrar gerðir af sauna, aðstaða til að fara í kalt vatnabað, nuddstofur, minjagripaverslun og sturtuaðstaða. Allt hótelið er svo svakalega flott skipurlagt og svo góður andi sem tekur á móti manni, eitthvað sem maður skynjar strax. Öll blóm sem notuð voru í skreytingar voru týndar utan við hótelið, skraut eins og könglar og steinar úr umhverfinu í kring settu mikinn svip á það sem fyrir augu bar. Við fórum sátt upp í svítuna okkar og slökuðum á. Í dag talaði ég við Marjattu og hittum við hana á fimmtudaginn inn í Kaajuna á skrifstofounni hennar áður en við heimsækjum Hotel Rokua. Hlakka mikið til að hitta hana og kollega hennar.



Miðvikudagur 12. september

Það var rigningarlegt þegar við snæddum morgunverðinn okkar á Kalevala hótelinu. Morgunverðurinn var glæsilegur eins og allt hótelið. Á morgunverðarhlaðborðinu mátti m.a. sjá hafragraut, síld og vöfflur sem maður bjó til sjálfur! (mjög góðar)
Ég ræddi aðeins við Sanni sem svaraði póstinum mínum og hún er sú fyrsta sem vissi að ég væri hér á vegum Leonardo. Hún spurði mig heilmikið um Ísland og okkar starfsemi auk þess sem hún sýndi mér allt hótelið og gaf mér upplýsingar um að 50% gesta á ársbasis væru Finnar og 50% væru alþjóðlegir ferðamenn. Í janúar og febrúar væri þó mest af rússneskum ferðamönnum á hótelinu. Á vorin og sumrin væri hótelið mjög vinsælt fyrir hina almennu ferðamenn og á haustin tekur við veiðitímabil og þá koma margir vegna útivistar og wellness, á jólunum er þema jólanna, hótelið býður þá upp á hlaðborð og þemagarðurinn er með sína túlkun og skemmtun á Kalevala arfinum. Alltaf nóg að gera ! Hótelið hefur 38 herbergi og 3 svítur, góðan sal sem hægt er að skipta niður í 4 minni sali fyrir ýmsar uppákomur, fundi eða ráðstefnur. Hún sagði að hótelið hafi fyrst verið í eigu bæjarfélagsins Kuhmo en það hafi verið keypt að einkaaðilum árið 1998 og var gert upp fyrir 5 árum síðan, sama mátti segja um allan Kalavalagarðinn sem umlykur hótelið, þ.e.a.s. bæjarfélagið sér ennþá um Vetrarsafnið, tjaldsvæðin og cottage kofanna sem leigðir eru út á sumrin á svæðinu en skemmti- og þemagarðurinn var einnig keyptur í fyrra af einkaaðilum sem reka hann núna. Hún mældi með að ég skyldi skoða garðinn þar sem hann var opinn svo sagði hún mér frá safninu sem segir frá vetrarstíðinu sem gerðist hér á svæðinu í seinni heimstyrjöldinni og það væri einnig á svæðinu og vert að skoða. Hún fræddi mig um Kalavala , sem er eins konar arfleifð úr fortíðinni sem fylgdi þessu svæði og þetta tengdist ritinu Kalevala þar sem menningararfur Finna liggur og er það skylda þeirra sem á svæðinu búa og þekkja arfinn að koma þessarri þekkingu til skila til nýrra kynslóða og ferðamanna. Margar listasýnigar eru á svæðinu allan ársins hring þar sem margir listamenn sækja efnivið sinn í þennan menningararf. Sanna bauð mér líka að prófa sérstakt nudd, Kalevala nudd sem er sérstakt finnskt nudd með vísun í arfinn, ég var hálfsmeyk, vegna nuddsins í Haikko, en hún fullvissaði mig um að þetta væri ekki mjög harkalegt. Við áttum tíma í nuddið kl. 14, þangað til höfðum við 2 tíma til að skoða skemmtigarðinn og safnið.
Vetrarsafnið var mjög áhugavert, mestar upplýsingar á finnsku en sumt á ensku. Það er ótrúlegt að hugsa til þess hversu mikla ógn Finnland hefur af Rússum og meira að segja enn þann dag í dag óttast fólk að rússar muni ráðast inn í landið og taka af þeim svæði eins og þeir reyndu í vetrarstríðinu árið 1939. Finnar hafa greinilega þurft að verjast mikið í gegnum tíðinna frá ágangi rússa og annarra þjóða. Þetta safn gefur mikla innsýn inn í hvað gerðist þennan viðburðaríka vetur og árin eftir. Þemagarður Kalevala var svakalega flottur, nokkur bjálkahús í gömlum stíl þar sem var að finna eitt og annað frá fornum tíma, þetta var hálfgert “open air museum” en svo var ein stór bygging þar sem hægt var að halda fyrirlestra, leikrit og veislur og í kjallara þess húss var vínkjallari alveg í ekta finnskum stíl, þar var hægt að panta mat á laugardags-kvöldum en annarrs var hann leigður fyrir hópa og fyrirframpantaða fundi. Frá vínkjallaranum voru undirgöng í skrýtið hús þar sem Kalevala bókin stóð, og undarleg tónlist spiluð undir, mjög galdralegt allt saman, þetta minnti óneitanlega á Hringadróttinssögu. Virkilega skemmtileg upplifun þar á ferð. Stúlkan sem fylgdi okkur í gegnum garðinn heitir Vaanna og talaði góða og skýra ensku og hafði einnig mikinn áhuga á Íslandi. Hún sagði okkur að garðurinn væri opið allt árið, mikið væri af uppákomum og í desember er sérstakt jólaþema í garðinum og þá væri mikill gestagangur þar sem góð samvinna væri á milli garðsins og hótelsins. Hótelið sér fyrir gistingu og vetrarafþreyingu og garðurinn um að koma menningararfinum til skila. Samvinna sem stuðlar að árangri beggja aðila.
Í einum bjálkakofanum var minjagripasala þar sem seldar voru vörur frá svæðinu, hunang, sultur, sýróp, bjór, hálsmen, luktir og allt mögulegt finnskt. Klukkan hálftvö fórum við á hótelið til að undirbúa okkur fyrir nuddið og vorum ekki fyrir vonbrigðum. Nuddið var mjög skrýtið, alls ekki slökunarnudd, maður tók þátt í nuddinu með ýmsum hreyfingum og það brakaði og bresti í okkur en eftir nuddið var allur minn bakverkur á bak og burt. Eftir nuddið keyrðum við inn í Kuhmo til að skoða bæinn. Þetta ver lítill en mjög fallegur bær. Þar sem klukkan var orðinn fjögur var ekki mikið að skoða og hellirigning svo við héldum aftur á hótelið. Minna tók á móti okkur og spurði hvort við vildum ekki borða í kvöld og jú svo sannarlega vildum við það og var aftur í boði “local food”. Í forrétt var svakalega góð laxasúpa, í aðalrétt var piparsteik og eftirrétt súkkulaðimús. Allt stóð vel undir væntingum og þjónustan jafnfrábær og persónuleg eins og alltaf. Við sátum lengi í setustofunni, tókum myndir og dáðumst af þessum frábæra stað. Þarna má sjá öll hlúð að öllum smáatriðum, alltaf allt hreint og fínt, blómin og skrautið úr nágrenninu, andinn og þjónustan persónuleg, útsýnið, umhverfið og allt svo töfrandi. Við ætlum svo sannarlega að koma hingað aftur í fjölskyldu- og skemmtiferð og munum mæla með staðnum.



Fimmtudagur 13. september

Það var hálf skrýtið að kveðja Kalevala hótelið, það er eins og maður hafi skilið eitthvað eftir þar sem þýðir að maður komi líklega aftur þangað. Starfsfólkið kvaddi okkur og ég lét Sanna hafa upplýsingar um Ísland og þakkaði henni fyrir frábæra dvöl og góðar upplýsingar. Leiðin hélt áfram til Kaajana, bæinn sem skrifstofa Marjatta er. Við vorum komin frekar tímalega svo við ákváðum að rölta aðeins um bæinn áður en við hittum hana, það var frekar kalt úti og greinilegt á trjánum að hér var byrjað að hausta. Klukkan 14.30 hittum við Marjatta sem tók vel á móti okkur og vísaði okkur inn í fundarherbergi þar sem við vorum í næði til að ræða saman. Við ræddum mikið um ferðaþjónustu í Finnlandi og þá sérstaklega í dreifbýli. Marjatta sagði okkur að svipað vandamál væri hér eins og Íslandi varðandi að fá menntað og öruggt starfsfólk í ferðaþjónustu á landsbyggðinni sérstaklega og að mikið væri um fólksflutninga til stærri bæja því lítið væri upp á landsbyggðinni að hafa. En þetta er þó nokkuð kynjaskipt þar sem karlpeningurinn finndi meiri rætur á landsbyggðinni þar sem veiðin væri mjög föst í rótum þeirra og þetta væri einhver arfleifð sem þeir vilja halda í. En um leið og stúlkur þroskuðust á landsbyggðinni þá flyttu þær venjulega í stærri bæji til að finna eitthvað að gera og þess vegna er það eitt af grundvallaratriðum í Proagria -Rural Women’s Advisory, samtökunum sem þær standa fyrir, hún og kollegar hennar, að finna einhvern grundvöll fyrir konur á landsbyggðinni í vöru- og atvinnuþróun. Mest væri um landbúnaðarvörur og aðrar áþreyfanlegar vörur og svo væru einnig eitthvað af ferðaþjónustufyrirtækjum sem tækju þátt í þessari þróun með samtökunum. Þetta eru ein af stærstu samtökum kvenna í Finnlandi og eru meðlimir hátt í 60.000 og eru 17 skrifstofur víðsvegar um Finnland. Marjatta spurði einnig um Ísland og fyrirtækið okkar og svöruðum við henni eftir bestu getu. Ég spurði einnig Marjettu varðandi umhverfishugsun Finna, vegna pappírseyðslu varðandi klósttheimsóknir mínar og hvort einhverjar ráðandi umhverfisstefnur væru meðal ferðaþjónustuaðila. Hún sagði að kynnt hafi verið umhverfisstefna á vegum hennar samtaka sem fyrirtækin hefðu ekki sýnt áhuga og sagði hún að sum fyrirtæki í ferðaþjónustu í Finnlandi væru bara með sínar umhverfisstefnur en engin “official” umhverfisstefna væri til innan finnskrar ferðaþjónustu. Ég sagði henni að Íslendingar væru alltaf að vera meira og meira að vera meðvitaðir um umhverfið og leiðir til að bæta og vernda það. Varðandi pappírseyðsluna sagði hún Finna ekki hugsa mikið um pappír og eyðslu hans vegna þess að ekki skorti þá skóg. Sjá sem sagt ekki skóginn fyrir trjánum! En henni þótti það samt miður að ekki væri hugað meira að umhverfinu. Manni finnst þetta skrýtið í ljósi þess að Finnland er ótrúlega hreint land, hvergi rusl né veggjakrot. Við áttum skemmtilegt spjall um verkefnið og sagði ég henni frá því helsta sem við höfðum upplifað og frá því að fæstir aðilana sem við höfðum heimsótt höfðu rætt við okkur að fyrra bragði varðandi verkefnið og sagði hún hafa rætt við alla aðilana og í mörgum tilfellum sem hún hringdi í aðilana voru nokkrir að taka frí á þessum tíma þ.e. eftir háönnina (við könnumst líka við þetta, heima í lok október þegar mesta törnin er búin er gott að slaka á aðeins!). Hún gaf okkur vísbendingar um hótel og aðrar ferðaþjónustur sem við gætum kíkt á á leiðinni til Helsinki. Við kvöddum hana með íslensku konfekti, hún þakkaði fyrir sig og útilokaði ekki að hún myndi heimsækja okkur ef hún kæmi til Íslands.
Við héldum nú vestur á leið til Rokua, Spa and wellness hotel. Það leit mjög stofnanalegt við fyrstu sýn og þegar inn var komið var fólk í hjólastólum og gamalt fólk mest áberandi. Við vorum frekar þreytt eftir langan dag en þetta var nú kannski ekki það sem við vorum að leita að eftir að við höfðum nú þegar heimsótt Runni og þetta minnti óneitanlega á þann gististað. Allt kalt og ópersónulegt og í rauninni ekki sú upplifun eða hugmyndir sem við erum að leita af. Við ákváðum samt að vera í eina nótt og finna hlýlegri, persónulegri upplifun og eitthvað sem getur nýst okkur betur í upplýsingaöflun fyrir verkefnið næstu nótt. Þetta gæti jafnvel nýtst þeim sem vilja þróa 300 herbergja heilsugististað í spítalastíl með eldri borgara sem markhóp. En fyrir FB og það sem rural ferðaþjónusta snýst um á landsbyggðinni heima, persónulegt andrúmsloft, hlýleika og tengsl við náttúru, local matargerð og þægilega þjónustu er þetta ekki líklegur staður til að fá hugmyndir!! Við vorum hálf smeyk við að snæða á hótelinu eftir matinn á Runni en ákváðum að slá til. Maturinn var ágætur en ekkert í líkingu við Hotel Kalevala. Enginn talaði eða skildi ensku og matseðillinn var bara á finnsku, svo það fór töluvert langur tími í að panta. Við litum niður í wellness centerið, eftir matinn, sem statt var í kjallara byggingarinnar og minnti það óneitanlega á kjallarann í Landspítalanum í Rvk (langir gangar, gólfdúkur, handrið meðfram öllu o.þ.h.)!! Íþróttasalinn fundum við og nokkur sánaherbergi, við reyndum að ræða við starfsmann þarna niðri en hann skildi ekki ensku.
Við smelltum okkur upp í herbergi og hlökkuðum til að halda suður á leið á morgun í leit að persónulegri og meiri “rural” upplifun.



Föstudagurinn 14.september

Við vöknuðum rétt um 9 í Rokua og náðum ekki í morgunmat fyrir 9.30 svo við pökkuðum saman og fengum okkur samlokur á kaffihúsinu í lobbýinu. Við horfðum í kringum okkur, var aðeins að sjá gamalt fólk með göngugrindur og hækjur og svo nokkrir í hjólastól. Okkur leið ekkert sérstaklega vel, þetta var hálf óþægileg tilfinning sem maður fær, eins og maður sé að fara að heimsækja einhvern á spítala. Eins og Marjatta sagði okkur er þessi staður (Rokua) og Runni eins konar heilsu og frístaðir fyrir gamla bændur og aðra eldri borgara sem ríkið styrkir í svona hálfgerð orlof. Þetta hentar ekki okkar aldurshóp og er markhópur hótelana líklega yfir 70 ára, ég veit náttúrlega ekki hvernig þetta er þarna á sumrin en svo virðist að ekki sé gert ráð fyrir litlum börnum eða fjölskyldum svo markaðssetning hótelana á netinu er eiginlega eins rengjandi og hún getur verið. Þar er ungt og heilbrigt fólk á öllum myndum og mætti halda að þarna væri meiri fjölskyldu og vellíðunarstaður en spítalaupplifun. Allavega væri þetta ekki sú markaðssetning sem maður myndi stunda fyrir svona stað!
Við héldum vestur á leið og ákváðum að keyra mikið í dag og reyna að gista á einhverjum “rural” stað nálægt Vasaa, við vorum hvergi búin að panta en treystum á að finna einhvern merktan skemmtilegan stað. Deginum áður höfðum við farið fram hjá mörgum áhugaverðum merktum gististöðum á leiðinni til Marjettu en ekki var hægt að segja það sama um þessa leið. Við tókum eftir einum rural gististað á leiðinni sem var cottage gisting en allt var lokað og læst þar og ekkert símanúmer sem hægt var að hringja í. Við fundum 2 staði á leiðinni: eitt landbúnaðarsafn og svo stað sem var einskonar “útivistar og frítíma garður” bæði lokuð!!
Við vorum orðin þreytt eftir mikla keyrslu og þráðum ekkert annað en mat og rúm svo við fengum herbergi inn á Sokos hóteli í miðri Vaasa borg á frábæru verði og ákváðum að panta þar í 2 nætur þar sem það er mjög þreytandi að gista á sitthvorum staðnum marga daga í röð. Við fengum upplýsingar um sérstakan local veitingastað sem sérhæfði sig í ekta finnskum réttum og vorum við afar heppin með mat þar. Við vorum mjög ánægð með herbergið á Sokos, allt mjög nýtt og flott en samt mjög kósý og mjög ódýrt. Við fórum sæl og þreytt að sofa eftir frekar þreytandi dag!!




Laugardagur 15. september

Við vöknuðum í sól og rigningu, fjölbreyttu en fallegu veðri og fengum rosalega fínt morgunverðarhlaðborð. Við tókum því frekar rólega þennan daginn og gengum um Vaasa eins og bakið á mér leyfði og fórum á kaffihús og sönkuðum að okkur bæklingum um svæðið og það sem það hafði upp á að bjóða, flest söfn voru lokuð utan Vaasa og leit út fyrir að Vaasa væri háskóla og ráðstefnubær og markaðsetti sig sem slíkan. Við komumst líka að því að flestir sem þar búa tala sænsku sem fyrsta tungumál og var ég heppin að hafa Jonna með mér sem er algjörlega skandinavískt mælandi í allar áttir. Vaasa er fyrsta stórborgin sem við heimsækjum í Finnlandi og var gaman að komast aðeins í borg og sjá muninn á borg og sveit sem er gríðarlega mikill hér, mun meiri en heima!! Um kvöldið var okkur ráðlagt að snæða á einum vinsælasta traditional veitingastað í Vaasa sem heitir Gustav Vaasa en þar var einkasamkvæmi þegar við gengum framhjá svo við enduðum á mjög góðum ítölskum stað. Um kvöldið slakaði ég á þar sem ég var mjög slæm í bakinu. Jonni ætlaði að kíkja í sánu fyrir svefnin en hún var lokuð svo við sofnuðum snemma.



Sunnudagur 16. september

Sól og blíða var í Vaasa þegar við yfirgáfum Sokos hótelið eftir yndislega dvöl. Sokos keðjan er afar þekkt hér í Finnlandi og eru hótelin venjulega staðsett á besta stað í stórum bæjum í Finnlandi. Allt er mjög einfalt en flott og er mikið hugsað um útlit og gæði fyrir gesti auk þess sem verðin eru mjög sanngjörn, það var t.d. helmingi ódýrara fyrir okkur að gista í borginni á Sokos heldur en á Runni og Rokua, þar sem upplifunin var mjög furðuleg, miðað við það sem við bjuggumst við.
Löng keyrsla var framundan og margir staðir sem við vildum skoða á leiðinni t.d. herragarð sem nú var starfandi sem safn, byggðarsafn nokkurs konar “open air museum”, gamalt myllukaffihús og minjagripaverslun í sveitinni. Það reyndar kom ekkert sérstaklega á óvart en allir þessir staðir voru lokaðir og engin á svæðinu sem gat hjálpað okkur, en myndir náðum við að taka og svo áttum við bæklinga.
Þegar við komum inn í Turkuu áttum við hvergi bókað á hóteli en tengdamamma hafði einhverntíma á ferð sinni til Finnlands séð svakalega flott SPA- hótel í Turkuu, Hotel Carabian, sem á víst að vera voða gott. Við fundum það fljótlega og það lítur virkilega vel út, ekki þessi hefðbundna spítalaímynd sem við höfum séð hér á stóru SPA- hótelunum sem við höfum heimsótt. Á þessu hóteli fundum við líka ýmsa bæklinga um önnur SPA hótel sem virðast aðeins meira í þeim stíl sem við vorum að vonast til að skoða hér í Finnlandi, en það er víst svolítið seint í rassinn gripin núna fyrir ferð á þessi hótel þar sem aðeins eru 4 dagar eftir af dvöl okkar hér og flestir staðanna eru of langt í burtu þannig að við komum heim allavega með upplýsingar um staðina og heimasíður sem hægt er að kynna sér.
Við fundum líka marga bæklinga um ýmsa staði sem okkur langar að skoða hér í nágrenninu og það virðist sem eitthvað sé opið af söfnum og stöðum til að skoða á morgun. Á morgun eigum við líka pantað í nudd á hótelinu sem verður gaman að prófa.




Mánudagur 17. september

Við vöknuðum snemma í hellirigningu í Turku. Hotel Carabian bauð upp á fjölbreyttasta morgunverð sem ég hef séð sem dæmi voru 4 gerðir af múslí, 6 gerðir af brauði og 6 gerðir af ávaxtasafa. Við snæðing morgunverðarins höfðum við útsýni yfir innisundlaugagarð sem líktist ævintýraveröld, þar var sjóræningjaskip í fullri stærð sem notað var sem kaffihús að hluta til og í garðinum voru vatnsrennibrautir, fossar og pálmatré. Eftir morgunverðin skoðuðum við þennan garð og spa-ið sem leit rosalega vel út. Þar var að finna hárgreiðslustofu, snyrtistofu, sánur, sundlaugagarðinn, nuddstofu og flotta biðstofu. Við pöntuðum okkur sitthvora spameðferðina, Jonni nudd og ég húðhreinsun. Það var ekki að spyrja að því meðferðirnar voru góðar og afslappandi, nema nuddið hans Jonna var “ekta finnskt”!! Við keyrðum inn í Turku og rigningin var látlaus við höfðum fjárfest í regnhlíf í Vaasa sem kom sér vel á dögum sem þessum. Við höfðum fengið upplýsingar í móttöku hótelsins um að öll söfn í Turku í eigu bæjarins væru opin allt árið nema á mánudögum svo við verðum víst að bíða til morguns með að skoða þau. Annars var ágætt að gangu um í rigningunni og skoða styttur og háskólanema og sátum við heillengi á kaffihúsi og spáðum bara í mannlífið. Finnar virðast að mörgu leiti líkir okkur Íslendingum þó þeir séu ekki eins norrænir í útliti og aðrir skandinavar eru þeir lífsglaðir og opnir og einhversstaðar las ég það að þeir séu meðal hamingjusömustu þjóða heims eins og við Íslendingar. Kvöldverður var snæddur á hótelinu og aftur höfðum við útsýni yfir vatnagarðinn flotta. Við fórum að spá hvernig hægt væri að nota svona “concept” heima, kannski örlítið minna í sniði, þá datt okkur í hug víkingaskip og víkinga heitapotta, kaldar víkingasturtur og slíkt. Það gæti verið skemmtilegt að flétta menninguna okkar í svona lífstíls- og spahótel.
Við pöntuðum okkur mat af heilsumatseðli hótelsins sem var mjög góður. Þegar við gengum upp á herbergi fannst manni maður vera staddur í ævintýri, það var allt svo töfrandi og mikilfenglegt þarna í kringum mann.
Á morgun stefnum við á að kíkja á landbúnaðarsafn og einnig á handverkssafn sem bæði eru staðsett hér í Turku og í eigu bæjarins, svo það ætti að vera opið!!
Annars er gististaður síðustu nátta enn óákveðin en líklega munum við fara í Helsinki og gista þar og skoða borgina og svæðið í kringum hana þar sem leiðin lá beint norður þegar við komum.



Þriðjudagur 18. september

Við vöknuðum eftir frekar svefnlausa nótt, vitum ekki af hverju!! Allt var mjög friðsælt og herbergið gott, líklega bara eitthvað í loftinu. Morgunmaturinn var jafn fjölbreyttur og deginum áður og við vorum mætt niður um korter í tíu. Þegar klukkan sló tíu kom starfsfólkið og hreinsaði allan mat út úr salnum. Við vorum smá hissa þar sem ennþá var fólk að borða, erum ekki vön þessu, allavega ekki heima. Við ákváðum að halda af stað frá hótel Carabian þar sem mikill dagur var framundan hjá okkur. Fyrst náðum við að villast heilmikið inn í Turku, bærinn er ótrúlega ruglingslegur þó hann sé ákaflega fallegur, mikið af görðum og grænum svæðum í miðbænum, eitthvað sem er oft ekki áberandi í stórborgum. Að því leiti áttum við oft erfitt að átta okkur á hvaða græna svæði við vorum að keyra fram hjá en eftir smá heilsubótagöngu og góða leiðsögn frá enskumælandi Finna fundum við Handverkssafnið. Aðgangseyrir var aðeins 3 evrur. Safnið var ekki allt opið en stór hluti af því. Safnið er hálfgert “open air museum” á sumrin þar sem fólk vinnur þar við að sýna helstu handbrögð fortíðar. Þetta var lítið þorp og minnti óneitanlega á Árbæjarsafnið en miklu meira eins og þröngt þorp frekar en sveitabæir á víð og dreif. Lítil timburhús með gömlum merkingum sýndu gömul úrsmíðaverkstæði, skósmiðjur, járnsmiðjur, verslanir, leður- og efnagerðir, þvottahús og íbúðarhús. Þetta safn hlaut gulleplið, sem eru virt safnaverðlaun, fyrir örfáum árum og á safnið viðurkenninguna svo sannarlega skilið þar sem safnið kemur fortíðinni ákaflega vel til skila, þó ég haldi að upplifunin sé töluvert líflegri á sumrin. Við tókum margar myndir en ekki mátti nota flass svo sumar eru svolítið dimmar. Eftir frábæra skemmtun í safninu þar sem íkornar stukku á milli trjáa í gamla þorpinu og innlit í minjagripaverslun safnsins sem var mjög látlaus en alveg ekta og ekkert uppfylingarefni þar á ferð fórum við austur á leið til Loimma en þar er að finna annað safn.
Landbúnaðarsafnið Sarka var gríðarlega flott og fræðandi um allt sem kemur landbúnaði í fortíð, nútíð og framtíð. T.d. mátti sjá nokkur líkön af þorpinu Sarkajoki frá bronsöld til ársins 2004 og með því að þrýsta hnappa kviknuðu ljós og heyrðust hljóð frá ákveðnum stað í þorpinu sem fyrst var lítill bóndabær sem þróaðist upp í heilt þorp. Þarna mátti sjá hvernig tæki og tól hafa þróast og híbýli manna eins og eldhús, útihús, tæki og tól. Sánur höfðu sinn sess á safninu og sýndar voru reyksánur sem notaðar voru til forna og eru enn sums staðar notaðar, við höfum ekki lagt í að prófa þær, maður verður víst mjög skítugur og “reyktur” eftir slíkar sánur!! Afurðir bænda voru sýndar sem og skepnur og beinagrindur þeirra. Safnið var mjög barnvænt og átti að höfða mikið til upplifun og skynjunar þeirra sem dæmi var þar hvít rennibraut og hvít efni allt í kring eins og snjór og þegar þau renndu sé niður mátti sjá varpað á vegg beint fyrir framan myndband frá eldri tíma og hljóð þar sem krakkar renndu sér á gamaldags sleðum í snjó. Safnið höfðaði mikið til skynjunar og mátti þreyfa á líkingar af hinum og þessum hlutum auk þess sem hljóðvarp og sjónvarp var mikið notað. Allar leiðbeiningar voru á ensku, sænsku og finnsku. Mjög skemmtileg upplifun en þar sem myndavélin varð akkúrat batterýislaus á safninu náðum við ekki að taka margar myndir en tókum bækling og auk þess hefur safnið heimasíðu sem hægt er að skoða. Mæli með heimsókn á safnið og í minjagripaversluninni var ýmislegt skemmtilegt og áhugavert að finna, allt frá leikföngum upp í skartgripi.
Við renndum inn í Helsinki um klukkan 18. í mestu rigningu sem við höfðum nokkurntíma séð og byrjuðum að leita að gistingu en það tók tímana tvenna. Eftir 2ja tíma leit með hjálp flestra hótela borgarinnar var ekkert laust nema ein junior svíta á Radison SAS hóteli í tveggja tíma akstursradíus í kringum borgina, við vorum bæði orðin úrvinda af þreytu og treystum okkur ekki til að fara að keyra út úr borginni í myrkri að leita að gistingu svo við tókum hana, dýrara en við vonuðumst til að finna en náttúrlega allt mjög glæsilegt í alla staði og veitingastaðurinn sveik okkur ekki.
Á morgun er svo ætlunin að líta á Helsinki, vonum að það verði ekki rigning!!



Miðvikudagur 19.september

Dagurinn var tekinn snemma þar sem brunavarnarkerfi hótelisins vakti alla gesti klukkan 7. Maður heyrði fólk hlaupandi um gangana og slökkviliðið var meia að segja mætt á svæðið en við ísköldu Íslendingarnar hringdum í lobbýið og fengum staðfestingu á “false alarm”. Við fengum morgunmat í rúmið sem var mjög gott, mér leið eins og prinsessunni á bauninni með bumbuna upp í loftið að drekka te og borða ristabrauð í rúminu!! Ennþá var rigning en borgin var of spennandi til að slaka á svo við hentumst út með regnhlífina í annari og myndavél í hinni og gengum um stræti metropolitan borgarinnar Helsinki. Við vorum mjög hissa á hversu mikil stórborg þetta er miðað við hversu frumstætt dreifbýlið var. Mjög stórar byggingar, menn í jakkafötum og konur með börn í öllum hornum. Allt iðandi af mannlífi. Kaffihúsin og hönnunarbúðirnar heilluðu mikið og hlupum við á milli búða í rigningunni. Við tókum nokkrar myndir en borgin er greinilega undir miklum framkvæmdum þar sem víða voru vinnuvélar og plankar til að ganga á. Seinnipartinn kom sólin í ljós og þá var gaman að sitja úti og skoða fólkið og byggingarnar. Augljóslega var mikið af ferðamönnum í borginni, en þó voru áberandi mikið af jakkafatamönnum sem greinilega voru í viðskiptaferð. Það er alveg ótrúlegt að hvert einasta herbergi í borginni sé fullt sem sýnir að borgin er mikil ferðamannaborg og sagði Tina okkur, konan sem vinnur í móttökunni að þriðjudagar – fimmtudagar væru án efa vinsælustu dagsetningarnar og væri mjög oft á þessum tíma mikill skortur á framboði gistingar á svæðinu. Þar sem við vorum vorum líka búin að athuga með gistingu í Vantaa, Espoo og Porvoo deginum áður fannst okkur rétt að spyrja að þessu. Mælum við með að fólk sé búið að sjá sér fyrir gistingu í Helsinki og þá sérstaklega í miðri viku!! Við blessuðu Íslendingarnar höldum alltaf að allt snúist um helgarnar :) Þetta leit svo sannarlega ekki vel út í gær þegar við vorum að leita að gistingu!!
Við borðuðum aftur á veitingastaðinum á hótelinu og fengum góðan mat, mikið var að gera og fengum við ekki borð fyrr en um 21. Sjónvarpið á herberginu (svítunni) hafði verið bilað frá því við komum og við vorum búin að biðja um að það yrði lagað, loksins var það komið í lag, svo við gátum fylgst aðeins með fréttum fyrir svefnin.



Fimmtudagur 20. september

Við náðum ekki fullum svefni þessa nóttina frekar en hina, því að sjónvarpið fór sífellt í gang eftir kl.6:30 Það endaði með því að við þurftum að rífa allt úr sambandi svo við fengjum svefnfrið. Við vorum mætt frekar snemma í morgunmat og ákváðum að kíkja niður í hlaðborðið, sem var fjölbreytt en þjónustan var ekki til að hrópa húrra fyrir. Mikil læti voru í fólki, hlaupandi um allt skellandi leirtaui og hnífapörum auk þess sem tónlistin var of há, sem varð þess valdandi að fólk talaði mjög hátt og maður varð ósjálfrátt frekar stressaður og sáum við að fleiri voru að upplifa svipaða tilfinningu. Þetta er náttúrlega eitthvað sem verður að passa, sérstaklega á svona fínu hóteli. Þegar við gerðum upp dvölina okkar hér í Helsinki á rándýrri svítu í miðri borginni var staðsetningin og herbergið rosa flott. En þjónustan og upplifunin sem slík ekki eins góð eins og t.d. á Kalevala, Sokos og Carabian. Þjónustan hér er mjög stöðluð og það hefur svo margt klikkað sem ekki þarf að klikka. Við höfum t.d. allavega 4 sinnum þurft að fá nýtt lykilorð til að komast á netið, við höfum þrisvar þurft að minna á bilað sjónvarp, við höfum hvoruga nóttina getað sofað lengur en til 6.30 og engin hefur beðist afsökunar á einu né neinu. Maður fær frekar á tilfinninguna eins og maður sé að ónáða frekar en að leita eftir þjónustu þegar maður talar við einhvern í móttökunni og það sem verra er hvergi getum við komið þessarri óánægju til skila öðru vísi en náttúrlega talað við “fólkið á gólfinu”, hér þyrfti eins og annarsstaðar sem við höfum gist hér í Finnlandi einhverskonar gæðakönnun gesta á hótelinu og því sem það hefur upp á að bjóða sem hægt væri að skila skriflega inn og myndi enda inn á borði stjórnanda. Þetta skiptir án efa miklu máli fyrir gististaði að athuga hvar fyrirtækið stendur, hvað betur má fara og hvað er gert gott. Eini plúsin sem þetta hótel fær hjá okkur er staðsetningin, húsgögn herbergisins og aðbúnaður þar. Kvöldverðarveitingastaðurinn stóð sig vel en allt annað fær falleinkunn!!
Við fórum í smá ferðamannatúr um Helsinki þar sem þetta er nú síðasti dagurinn okkar. Við skoðuðum Steinakirkjurna (Church of Rock) sem var afar glæsileg og kíktum í eina vinsælustu minjagripaverslun Finna sem er beint á móti kirkjunni (Anne shop). Við vorum mjög lengi að finna kirkjuna þó við værum með kort, þar sem kirkjan er eiginlega inn í kletti og lítur ekki út fyrir að vera kirkja við fyrstu sýn, við keyrðum svona 5 sinnum framhjá áður en við áttuðum okkur á þessu mannvirki. Kirkjan var ákaflega glæsileg að innan en ekkert í rauninni sem minnti neitt á kirkju þar inni nema altarið, skírnarponturinn og kertaljós. Aðgangur var ókeypis og það voru ótrúlega margir inn í kirkjunni að taka myndir og skoða þessa flottu en skrýtnu byggingu. Við vorum nú aðeins farin að kvíða því að finna gististað aftur, vildum náttúrlega helst vera í Helsinki þar sem heimför er á morgun og það var alls ekki erfitt í þetta skiptið, við slysuðumst inn á veitingastað og þar var eitt af hinum frábæru Sokoshótelum og við fengum gistingu á mjög góðu verði síðustu nóttina okkar og frábæra Sokosþjónustu í ofanálag. Við snæddum á veitingastað hótelisins þetta kvöld þar sem bakið á mér bauð ekki upp á mikið brölt þetta kvöldið. Ég notaði kvöldið í að byrja á skýrslunni og klára dagbókina og mun reyna að koma henni í aðgengilegra form þegar ég kem heim. Þessi tími er búin að vera ákaflega fræðandi og skemmtilegur. Margt kom á óvart eins og t.d. hversu erfitt var að finna opna staði á landsbyggðinni og hversu stór og "metropolitan" borg Helsinki er. Fólkið hér vestan megin í Finnlandi er mun opnara en fyrir austan og má reikna með í gegnum sögu landsins hafi austanhlið Finnlands hlotið meiri áhrif frá Rússlandi og í ofanálag þurft að þola meiri stríð og baráttu en hinir. Á norður Finnlandi er menning og saga áberandi og einkennist fólkið af miklum áhuga af því forna og þeim töfrum sem landið hefur upp á að bjóða. Fyrir sunnan og vestan er meiri stórborgarabragur á öllu og ekki eins mikið horft á okkur þar J Það var svolítið eins og við værum einu ferðamennirnir sem höfðu komið á ýmiss svæði austanmegin. Það var mjög gaman að sjá samanburðinn. Það sem líka stendur upp úr er að hér eru fleiri hótelkeðjur en heima og þ.a.l meiri samkeppni. Háannatíminn hér virðist líka vera mjög ólíkur háannatímanum heima. Hér eru háannatímarnir háðir þremur mánuðum á sumrin og svo tveimur á veturna. Ferðaþjónusta í Finnlandi er líka ákaflega afþreyingatengd og er mikið val í afþreyingargeiranum sem snýst um sumarafþreyingu eins og vatna og sjósund, blak, tennis, frispígolf, gönguferðir, stafagöngu, hjólreiðar o.þ.h. á veturna eru líka sjóböð, skíðaganga, skíðastökk og aðrar skíðaíþróttir, sleðaferðir, saunabað (allt árið), snjógönguferðir o.þ.h. Á haustin eru veiðiferðir mjög vinsælar og urðum við vör við marga veiðimenn. Eins virðirst sem Finnland sé eitt vinsælasta landið í fundar og ráðstefnuhöldum og eru því möguleikar landsins óþrjótandi hvað varðar þróun í ferðaþjónustu. Það er á nógu að taka heima enda búum við Íslendingar yfir gríðarlegum möguleikum og það er margt sem við getum lært af Finnum í þessu samhengi. Þetta er búin að vera ákaflega skemmtileg og fræðandi óvissuferð og erum við þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri í að fara í þessa ferð. Það er ákaflega nauðsynlegt að fá að kynnast því sem er að gerast í kringum okkur til að geta fengið hugmyndir og séð hvar maður stendur í greininni. Þegar maður stendur hinum megin við borðið á maður auðveldara með að rýna í hlutina sem góðir eru og hverju má breyta hjá manni sjálfum. Við höfum ákveðið eftir þessa ferð að hafa þetta árlegan viðburð hjá okkur, þ.e. að heimsækja annað land og kynnast þannig greininni betur og nýta þann samanburð sem við fáum til að bæta okkur og verða betri í greininni. Þetta verða lokaorðin í þessarri dagbók. Takk fyrir okkur!! xxx

7 comments:

Anonymous said...

Exact morning payment loans are generally a type of payday cash advances supplied for a calendar month span during crisis situations.
They will don’t need to have this proof situations’ unexpected, none needed surety, credit file not other
stuff. Perhaps you may prepare if you want a, some vital products and services or maybe
cover your organization expenses – Equal time of day payment
lending options can help you in any events.
These days all these personal loans are presented on the net.


Review my homepage - pożyczka bez bik

Anonymous said...

Exact same time of day installation loans are a kind of payday cash loans
provided for your few weeks length during crisis problems.

Many people don’t involve the particular proof of situations’ unexpected emergency, or needed surety, credit score not other stuff.
Perhaps you may method a secondary, some necessary buys or perhaps take care of
your company charges – Very same time payment borrowing products will let you in a occurrences.
These days all of these financial products can be bought on line.


Also visit my web site - pożyczki prywatne

Anonymous said...

Same exact morning set up financial loans will be a variety of payday advances granted for that
thirty day period phase throughout sudden conditions.

People don’t will need any evidence of situations’
critical, not needed surety, credit score neither other stuff.
You can schedule a secondary, several important expenditures as well as include your business expenses – Same exact
working day fitting personal loans will allow you to in different cases.
In these days all of these loans can be bought web based.

my web blog :: chwilówki

Anonymous said...

Same moment installing personal loans really are a variety of cash loans granted for just a week phase throughout unexpected emergency scenarios.
Individuals don’t have to have typically the proof
situations’ urgent, none they want surety,
credit profile nor other stuff. You could method if you want a, numerous
fundamental products and also handle your online business expenditures – Same day time setting up loans will assist you to in any incidents.

Today these kinds of lending products are accessible on-line.


my web-site ... kredyt bez bik

Anonymous said...

Comparable day payment financial loans are a type of fast payday
loans given on a few weeks period around urgent occasions. These people don’t necessitate typically the evidence of situations’ urgent, neither they must be given surety, credit report none other stuff.
You could possibly arrange a vacation, some fundamental products and services or deal with your online business purchases – Same evening set up personal loans will let
in any instances. Now all these funds are available over the
internet.

Also visit my page; szybka pożyczka

Anonymous said...

When conѕidering cash, yоu can fіnd thе actuаl
prеρarеd оblіgatiоnѕ аnd therefore the sudden prісes this slide all thе ωaу uρ stealthіly consuming
uѕ all totаlly unaware. As an ехamρle,
yοu could ρossibly encountег
the requiгement to іnѕpect an suffегing іn comρariѕοn wіth the
loveԁ оnes or maуbe reрlace any plumbіng іn youг
resіdenсe. Youг car or tгuck cοuld faіl and cаn will nеed mаin ρrοblems and everyonе or simрly аll your family partіciρаnt сould possibly fall і'll necessitating instantaneous medical help. All these create a toll on your own resources and you could demand critical funds to help you tide anyone across until your pay day advance. We offer practical payday advances to assist shoppers manage economically stressful conditions.

does really well with coordinating the ideal loan company together with the consumer around have to have. We know the importance connected with working together with banking institutions who sadly are responsible, high quality plus moral. We all require considerable time assessment loan companies pertaining to quality earlier than together with these individuals inside our networking. Present a superb stage so you might consider a suitable loan provider based upon your distinctive must have.

Also visit my blog kredyt bez zaswiadczenia o zarobkach

Anonymous said...

Beіng aware of the lender you will hаndle with
regarԁ to ρerfeсt payԁay cash loans іs
the best iԁеa. The more often all of our buyerѕ unԁerstand individuals, greatеr they're going to enter the required forms to find revenue. Along with lots of lenders on the market, you possess the options for that reason you have to come up with a beneficial judgement. Choosing a loan service which offers hard cash personal loans together with the preferred interest rates is extremely important. Everyone look to generally be privately of cheaper deals compared to the various other financial institutions all over Queensland.

Most of us concentrate on being certain you become the very best experience on every occasion you must have some more cash. Currently online payday loans for people the fact that stay in Queensland and who have got income. This site offers favorable amounts of dollars to get the income you will need right away whatsoever. This site offers harmful credit rating fiscal loans in order to certainly not have to be nervous that a fico score isn’t increased more than enough.

For only a few a few minutes it will be possible to be able to complete each of our use. And aim should be to make it easy for someone to put on devoid of any sort of challenges. Everyone request hardly any inquiries in addition to benefit from which usually facts to check ones own eligibility. The sooner from the time of day which you request financial resources, a more rapidly you can purchase for them permitted for your needs.

It entails usa straight depositing this money you will settle for in to your money. For those who apply early in the day anyone can acquire of which profit precisely the same morning. Normally, the monies is going to be available in the mail. Currently excellent reimbursement terminology and we will push the button your money can buy for you to come out of ones own again profile automatically.

We want that you recognize a person aren’t on it's οwn when уou
requirе that will lend caρіtal.
We've good support service those who good care. You are able to get in touch with these people through chat, contact, or simply e mail. You should also talk to these products any moment from the day or simply overnight. We have also 7 days a week mortgage loan running.

Before you give consideration to perfect cash advances from any place else, you'll want to vіsit therарiеs pгοviԁеs.
We're also the optimal destination to find cash advance loans for the disaster will need you might have. We offer an instant web based app so that you could receive cash fiscal loans before long. Don’t submit an application for lousy credit scores financial loans somewhere else as well as you'll be
spending mοnеу on money.

Also viѕіt my web blog - pozyczki dla bezrobotnych